miðvikudagur, 25. júní 2008

Fluttir....

www.hreppakappar.is

Erum fluttir á nýja staðinn þó hann sé ekki alveg tilbúinn. En þetta er allt í vinnslu.

EL GRJÓNÓ

mánudagur, 9. júní 2008

Hvað er uppi?

Jáhh, hér hefur ekki mikið verið ritað undanfarið. Skal reyna að bæta aðeins úr því með nokkrum línum.

Um helgina var fyrsta MX-mót ársins og einni það fyrsta sem Hreppakappar koma nálægt. Reyndar var þátttakan ekki alveg sakvæmt áætlun því í stað fjögurra manna Hreppakappaliðs keppti bara einn kappi og var það Egill Jóhannsson. Hann keppti í sínu fyrsta MX-móti, en þar sem Hondan þurfti nýja legu fékk hann KTM 450 lánað frá Jónsa í keppnina. Þar var mígandi rigning og rok þennan dag í Sólbrekku og margir þátttakendur. Skv My laps var Egill með þriðja besta tímann í B í tímatökunni og eftir það "run" biðum við í nokkra tíma eftir fyrra B-moto-inu. Þar lagði Egill af stað í 30 manna hóp. Hann var ekki vanur hjólinu og klikka því smá í startinu með því að setja framdekkið frekar bratt. Svo þegar í fyrstu beygju var komið lenti hann á eftir einhverjum sem stoppaði og tafðist þar einni. Svo fljótlega í fyrsta eða öðrum hring sprakk framdekkið hjá honum. Með sprungið framdekk, aftarlega í sleipri og erfiðri brautinni leit þetta ekki neitt voðalega vel út á þessum tímapunkti. Það breytti því samt ekki að eftir fyrsta hringinn var hann orðinn 7undi og ég horfði á hann skauta inn í eina beygjuna og koma 6. út úr henni. Hringinn þar á eftir var hann orðinn 3. Fljótlega annar og svo sé ég hann í fjarska taka fram úr þeim fyrsta og var þar með orðinn fyrstur. Smám saman jók hann forskotið og á þeirri stundu var ríkjandi í huga mér hugsunin um það að við vorum búnir að ýta KTM-inu 4 sinnum í gang þennan daginn. Svo fara fremstu menn í hvarf í brautinni miðað við okkar staðsetningu og bróðir minn var að taka tímann. Svo segir bróðir minn að skv tímanum sé Egill að fara að koma "í mynd" aftur og við byrjum að leita. Þá kemur sá sem var númer eitt á undan Agli í mynd en ekki Egill. Hann kom bara ekki. Ég og Sigurbjörn bróðir rukum af stað til þess að leita að honum. Við fundum hann við einn pallinn. Ósáttann. Hjólið drap á sér og fór ekki í gang. Við kunnum Jónsa bestu þakkir fyrir lánið á hjólinu en því miður dugði það ekki nógu lengi til þess að nýta stöðuna. En eitt er þó víst eftir þetta, að okkar maður á sinn stað þarna í mótinu og hlakka ég bara til þess að sjá hann í næsta MX-móti.

Á miðvikudag fara svo 12 Hreppakappar í hinu frægu Estró-Testó-2008 sem er komin með nýtt nafn. En það mun vera TESTÓSTERÓN 2008 því engar dömur koma með í þessa ferð. Reyndar var hópurinn farinn að telja 20 manns en íbúðakaup, slæmt líkamsástand og sumarskóli var að taka menn úr, jahh ekki umferð en úr ferð.

EL GRJÓNÓ

þriðjudagur, 27. maí 2008

Til sölu
MMC pajero sport V6 sjálfsk. árg. 2004 ek. 79.000 33" nýleg microskorinn heilsársdekk. Filmur, dráttabeisli.
Frekari uppl. í S: 868-5612 Ágúst

fimmtudagur, 22. maí 2008

Fyrsta enduro-mót Hreppakappa...Ég var að setja inn myndir frá fyrstu enduro-keppninni sem Hreppakappar taka þátt í. Verð að skrifa meira um það seinna. Árangurinn kemur fram á myndasíðunni þar sem myndirnar er að finna. Einnig eru myndir frá keppninni á Nítró.is, Motosport.is og MXSport.is.

EL GRJÓNÓ

miðvikudagur, 21. maí 2008

Estró-Testó-2008...

Jæja, nú eru örugglega allir orðnir pirraðir á að ekkert gerist í kringum þessa góðu ferð okkar, en það er kannski ágætt að við vorum ekki búin að borga gistingar hér og þar. Því fyrstu tveir dagarnir eru "dottnir út". Þ.e.a.s. að Hella er nú lokuð fyrir hjólum og einnig er búið að loka á hjól á Sólheimasandi. Sem þýðir að það sem er í boði í þessari ferð er Höfn, Egilsstaðir, Akureyri, Sauðárkrókur, Ólafsvík og Akranes. Spurning hvort við ættum þá að leggja af stað á Höfn seinni partinn þriðjudaginn 10. júní og byrja að hjóla þar á miðvikudagsmorginum. Eyða svo seinni partinum í að keyra austur á Egilsstaði og hjóla þar. Taka svo föstudaginn í að koma okkur á Akureyri, hjóla þar MX, keppa í enduro..... meira seinna...

miðvikudagur, 7. maí 2008

Myndir frá Head2Head...Jæja, þá eru loksins komnar inn einhverjar myndir frá Head2Head mótinu sem við héldum 26. apríl. Þær er að finna í myndasafninu okkar eða bara líka HÉR. Einnig eru nokkrar myndir frá aðalfundinum sem fór fram sama dag. Ég vill þakka Gulla #111, Gumma Steinþórs og Skara sérstaklega fyrir komuna. Þó flestir okkar hafi ekki haft mikið í þá var mjög gaman að sjá þá keyra brautina okkar. Skemmtilegt "twist" sem gerði góðan dag enn betri. Það eina sem hefði betur mátt fara, er að það hefði verið gott að vera laus við rokrassgatið. Aftast vantar nokkrar stökk-myndir en ég fæ þær á næstunni.

EL GRJÓNÓ

miðvikudagur, 23. apríl 2008

Töff, töff, töff...

Smellið á myndina fyrir RacerX-myndband sem er alveg "hefty fine"! Töff lag líka...EL GRJÓNÓ

mánudagur, 21. apríl 2008

Skráningarfrestur á mótið rennur út klukkan 12:00 föstudaginn 25. apríl...

Ég er að setja upp keppnisfyrirkomulagið og það væri gott ef allir gætu skráð sig sem fyrst. Ég nenni ekki að hlusta einhvern skrá sig á mótið 5 mínútum eftir að það byrjar og kvarta síðan undan því að það sé ekki skipulag í gangi. Ég er búinn að henda upp uppkasti að fyrirkomulaginu. Það má sjá hérna niðri. Númerin í reitunum standa fyrir rásröðina. Hún gæti breyst eitthvað og gerir það að sjálfsögðu ef fleiri bætast við. Undir rest gæti verið stutt á milli umferða hjá mönnum en það verður bara að hafa það. Ætlunin er að breikka brautina og hafa hana styttri. Það eykur möguleika á framúrakstri en styttir hringinn þannig að við munum líklega hafa 2 eða jafnvel 3 hringi í hverri umferð.

Smellið á myndina til þess að sjá hana betur.Og ég fékk póst varðandi keppnisnúmerin. Þeim verður úthlutað í næstu viku og þá ætla ég að sækja um þau aftur. Ég læt ykkur vita hvernig það fer.

EL GRJÓNÓ

föstudagur, 18. apríl 2008

Head2Head keppni í MX í Hverabakkagryfjunum 26. apríl 2008 eftir aðalfundinn...Já, þið lásuð rétt. Nú höldum við bara æfingu (mót) heima. Úr því að allir verða á svæðinu þennan dag út af fundinum, þá er um að gera að menn hafi með sér hjólin og við gerum eitthvað grín. Stefnum á að þetta byrji upp úr klukkan 16:00. Þá verðum við vondandi búnir að koma öllum fundamálum frá.

Æft (keppt) verður í tveimur flokkum. Ég lét það nú ráðast af vélastærð. En við skoðum síðan hvort menn verði ekki eitthvað færðir á milli flokkar miðað við aldur og fyrri störf. Byrjum bara á byrjuninni. Þar sem þetta er æfing og þá æfum við allir á eigin ábyrgð og því er skráning hjóla ekki skilyrði. En ég vill ekki fá menn inn á skítugum skónum í ræktina mína og hér eru þá nokkrar grundvallarreglur:
1. Kúplings- og bremsuhandfang skal hafa kúlu á endanum. Einn brotinn endi dæmir menn úr leik.
2. Pústkerfi verður að vera hjólinu til þess að takmarka hávaðamengun. Kraftpúst á borð við FMF og Pro Circuit eru leyfð svo lengi sem þau eru í lagi.
3. Hjólið má ekki leka olíu eða bensíni við það eitt að standa upprétt. Sóðaskapur verður ekki liðinn.
4. Krafa verður gerð á ökumenn að vera í viðurkenndum MX-skóm, með hjálm, gleraugu, brynju og í buxum úr slitsterku efni. T.d. MX-buxur. Mælst er til þess að kragar, hnéhlífar eða -spelkur, olnbogahlífar og nýrnabelti séu notuð.
5. Ölvun eða áhrif annarra efna sem hafa áhrif á viðbragð og hegðun dæma menn að sjálfsögðu úr leik.
6. Iðkendur (keppendur) undir 18 ára aldri (dagurinn gildir) verða að mæta með skriflegt leyfi frá foreldrum. Foreldrum þeirra iðkenda er velkomið að hafa samband við formann fyrir frekari upplýsingar. Sími: 866-9035 eða elgrjono@gmail.com.
7. Tveir menn keyra brautina í einu og keppa við hvorn annan. Allir keppa einhvern tímann við alla og vinnur sá sem hefur flesta sigra eftir eina umferð við alla. Til bráðabana kemur ef menn eru jafnir eftir eina umferð. Skipst verður á að starta úr hvorum flokki. Þjófstart jafngildir tapi.
8. Iðkendur verða að vera félagsmenn AHK. Hægt er að skrá sig með því að hafa samband við stjórn og einnig á fundinum. Minnum á félagsgjaldið sem er 5.000 krónur fyrir árið.

Þessar reglur eru birtar með fyrirvara um breytingar og áskilur stjórn sér fullan rétt til þess að breyta þeim til þess að auka öryggi iðkenda eða auka skemmtanagildi keppninnar.

Svo um kvöldið vona ég að við getum komið saman einhvers staðar og grillað. Þeir sem hafa aldur til fá sér kannski aðeins af öli en áfengisdrykkja félagsmanna undir aldri verður ekki liðin.

Gott væri ef allir gætu skráð sig sem fyrst svo ég geti sett upp skipulagið fyrirfram og haft það klárt þegar að keppni kemur svo ég geti líka verið með og til þess að spara tíma. Og látið endilega alla vita sem mögulega fara ekki hingað inn á síðuna. Skráning fer fram hér í athugasemdum eða með því að hafa samband við einhvern úr stjórninni. Fyrir frekari upplýsingar er bent á að hafa samband við formann. Símanúmer og netfang er að finna ofar í pistlinum.

Með vinsemd og virðingu
EL GRJÓNÓ

mánudagur, 14. apríl 2008

Aðalfundur AHK verður haldinn 26. apríl klukkan 14:00 á Útlaganum...

Já, nú er komið að hinum árlega aðallfundi. Hann verður haldinn á Útlaganum Flúðum laugardaginn 26. apríl næstkomandi klukkan 14:00.

Dagskráin hljómar svona:

1. Setning
2. Kjör fundarstjóra og fundarritara.
3. Skýrsla stjórnar og nefnda lagðar fram til umræðu og samþykktar.
4. Reikningar síðasta reikningsárs lagðir fram til umræðu og samþykktar.
5. Kosning nefnda sem starfa á aðalfundi.
6. Sjórn leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
7. Tillögur til lagabreytinga og aðrar tillögur lagðar fram.
8. Umræður um tillögur, sem fram hafa komið.
9. Kosning lagabreytinga.
10. Kosning formanns.
11. Kosning stjórnarmanna.
12. Kosning skoðunarmanns reikninga.
13. Önnur mál.
14. Fundargerð lesin upp til samþykktar.
15. Fundarslit.

Tvö lagaákvæði eru lögð fram til breytingar. Þ.e. að færa til reikningsár félagsins og aðalfundinn. Þetta tvennt þarf að færa til keppnistímabils og er tillagan sú að aðalfundurinn verði þá haldinn í október. Þetta er gert í samráði við MSÍ sem stefnir á að færa sitt tímabil líka og ætlunin er að samræma öll félögin sem eru undir MSÍ í að gera slíkt hið sama.

Einnig verður þennan daginn eftir aðalfundinn FERÐAFUNDUR vegna ESTRÓ-TESTÓ-2008. Þannig að ef þið eruð skráð í ferðina þá er skylda að mæta á þann fund.

Og að lokum verður haldinn liða- og keppnisfundur þar sem farið verður yfir stöðu mála fyrir Íslandsmót.

Látum fundaboðið berast og látið félagsmenn vita sem hafa ekki aðgang að internetinu.

EL GRJÓNÓ