miðvikudagur, 27. júní 2007

Fyrsta myndbandið og Hekluferð...



Jæja. Hér er komið fyrsta myndband Hreppakappa. Þetta er tekið upp af hreppakappa. Það er hreppakappi að keppa á myndbandinu. Og það er hreppakappi sem klúðraði þessu saman á tölvunni sinni. Áhugamannamyndband út í gegn og því ekki hægt að kvarta yfir því að þetta sé ekki í gæðum á borð við það sem sjónvarpsstöð gæti gert. Þetta tókst loksins eftir að rétta forritið fannst og mér tókst að læra á það. Næsta verkefni er að skella saman í heimildarmynd um ferðina góðu.
HEKLA. Við ætlum að fara að rótum Heklu á laugardaginn og stefnum við á að leggja af stað um 10 leytið. Þeir sem þurfa flutning fyrir hjólið skulu láta stjórnina vita. Við reddum því. Sú niðurstaða var fengin að 85cc sé lágmarksstærð á hjólum en þau eru þó fullgild. Og fyrir þá sem velta fyrir sér aðstæðum þarna, þá er þetta allt vikur. Hann er misþéttur en býður ekki upp á mikið grip. Einnig slítur hann afturdekkinu frekar mikið. Þarna eru líka langar og brattar brekkur í bland við lækjarsprænu og ýmsar sléttur. Þetta er mjög gaman og geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. En þar sem þetta reynir mikið á hjólið mæli ég með nýrri olíu á mótor, hreinni loftsíu og passa að það sé nóg á vatnskassanum. Jafnvel að hafa með litla flösku af blönduðum frostlegi. CRF-ið mitt þornaði alla veganna svolítið síðast þegar ég fór. Fullur tankur og einn 10 lítra brúsi af bensíni er nóg og muna að smyrja keðjuna vel kvöldinu áður. Og þar sem við viljum ekki horfa upp á slasaða menn tökum við ekki annað í mál en að menn séu í fullgildum hlífðargalla. Ef einhverjir hafa frekari spurningar þá er þeim bent á að hafa samband við stjórnina.

EL GRJÓNÓ

mánudagur, 18. júní 2007

Ferðin búin, bara framtíðin eftir... :)


JÆJA, nú er Testósterón 2007 lokið. Þetta var hreint mögnuð ferð og þakka ég samferðamönnum mínum kærlega fyrir magnaða ferð. Og undirbúiningur fyrir Testósterón 2008 er hafinn. Skráning í hana hefst líklega samt ekki fyrr en í haust. Myndir eiga eftir að leka inn á næstu dögum og vinna við að raða saman léttri heimildamynd fer fljótlega af stað.


FYRSTA KEPPNIN sem HreppaKappar taka þátt í hefur þegar farið fram. Við fengum tengingu og keppnisréttindi á laugardag því þá fór fram fundur HSK þar sem umsókn okkar var tekin fyrir og félagið varð hluti af íslensku íþróttalífi. Og þar sem okkur er alvara þá var sama dag í fyrsta skipti maður að keppa á okkar vegum í móti. Það var félagi Erlingur Þór Cooper á Pontiac Trans Am 5,7 sem tók þátt í götuspyrnunni á Akureyri á bíladögum B.A. En þar sem mótherjarnir gegn óbreyttum Trans Am voru t.d. 590 hö. Cobra, 511 hö M.B. E55AMG, 525 hö. D. Charger SRT-8 og tveir kvartmílubílar sem töldu einhver helling hestafla yfir 600 þá varð ekki mikið um sigra. En spyrnur og spól frá Erlingi náðust á myndband og mun það koma inn á næstunni.
AUGLÝSING frá félaginu birtist í síðasta Pésa og engin viðbrögð hafa fengist við henni. Þannig að næsta skref er að hafa samband við landeigendur og athuga áhuga þar.
PEYSUR. Tilboð fer að berast frá Merkt og þá verður sent SMS á félagið. Því verður að svara til þess að tilkynna pöntun á peysu og nafn sem birtast skal á peysunni.
FÉLAGSLÍF. Fyrirhuguð er ferð að rótum Heklu laugardaginn 30. júní. Laugardagur fullur af fíflagang og skemmtun. Sú ferð verður auglýst nánar síðar og einnig verður send út tilkynning. Einnig stefnum við á að skreppa í tveggja daga ferð inn á Hrunamannaafrétt í júlí en við munum hafa 18 ára aldurstakmark í þá ferð.

Ekki fleira í þetta sinn.
EL GRJÓNÓ

þriðjudagur, 12. júní 2007

Testósterón 2007. Dagur 2 og 3. Vík og Höfn



Jæja. Hér er bara búið að vera svo gaman að við höfum ekki haft tíma til þess að færa fréttir á netið. En nú er um að gera að bæta úr því. Í gær hjóluðum við á Sólheimasandi og það var viðbjóðslega gaman. Gummi prjónaði yfir sig, he he, og Egill flaug fram fyrir sig í stökki. Og brekkurnar á Sólheimasandi voru alveg ágætar, tókum nokkur ágætis stökk og allt gekk vel nema hjá Gumma. :) Og svo var það Höfn í Hornafirði. Þar fórum við í motocross-braut sem tók hel... vel í hendurnar. Egill var hel.. snöggur í brautinni og þar voru ágætis stökkpallar og eitt leiddi af öðru. Fyrst flaug Grjóni einhvern veginn aftur yfir sig og lenti harkalega á RASSGATINU með því að gera sömu mistök og á Hellu. Eftir það virtist allt ganga upp en NEI, þá kemur Gústi að stökkpalli og lendingin var ekkert alltof góð svo hann flaug af hjólinu og rúllaði í nokkra hringi og sá stjörnur þegar allt var yfir staðið. Því miður lentu Gummi og Egill ekki í neinu óhappi núna en það eru alla veganna 3 dagar eftir svo það er bara bíða og sjá. :)

Honda crew-ið það var mætt, og það endaði frekar illa... :)

ps. á http://picasaweb.google.com/hreppakappar er hægt að sjá myndir úr ferðinni. Öll myndböndin verða síðan klippt til í heimildarmyndina.

sunnudagur, 10. júní 2007

Testósterón 2007. Dagur 1. Hella.

Vorum lentir á Hellu rétt um 2 leytið eftir hádegi. Veðrið gat ekki verið betra fyrir þessa iðju. Logn, þurrt og engin sól. Því hitinn varð gríðarlegur og því fylgdi bara svitabað. Um hálftíma eftir að akstur hófst rauk formaðurinn heldur betur upp á afturendann og vel rúmlega það. Þá var ekkert annað að gera en að finna sér vír til þess að laga hliðar-plastið sem lokar lofthreinsaranum. Varamaðurinn fór síðan á trýnið og braut bremsuhandfang. Annars leið dagurinn tjónalaust og bara með þessum stöðluðu aulaveltum. Ritarinn og gjaldkerinn héldu sínum hjólum tjónlausum, en hey, þetta var bara dagur 1. Gefum þeim séns. Aðstæðurnar á Hellu voru hrikalega skemmtilegar. Aumir framhandleggir og önnur þreyta segir mikið til sín núna. Umfelgun, menning (bjórdrykkja og "markaðs"rölt) og skipulaging morgundagsins er það sem tekur við núna eftir vel útilátna og góða máltíð hjá "tengdó" í Vík. Kjúlli og rjómapönnsur hitta alveg í mark. Í dag kom einnig fyrsta reynslan á myndbandsupptökuhæfni formannsins og þegar Egill var beðinn um að taka áhættusamt stökk tvisvar í viðbót svo það næðist loksins almennilega á mynd var hann ekki al-kátur. En árangurinn varð góður og mun lenda í heimildarmyndinni þegar hún hefur verið klippt til. Ljósmyndir verða færðar inn seinna. Þó þær hafi ekki verið margar þennan daginn því það er miklu skemmtilegra að hjóla en taka myndir... :)

EL GRJÓNÓ

föstudagur, 8. júní 2007

Testósterón 2007

Á sunnudagsmorguninn mun stjórnin leggja af stað í ferðina miklu sem fengið hefur nafnið Testósterón 2007. Markmiðið er að vera sýnilegir og umframt allt hafa gaman af. Við verðum í peysunum, erum búnir að merkja eitthvað af motocross-treyjum líka og fánarnir verða tilbúnir fljótlega. Ef þessi ferð mun ganga vel, mun skráning í svona hringferð ábyggilega fara af stað fyrir næsta ár. Og þá munum við vonandi fjölmenna. Einn stjórnarmeðlimur splæsti í nýja myndbandsupptökuvél og myndavélar verða með í för. Markmiðið er að uppfæra síðuna með myndum og léttri ferðasögu flest kvöldin þannig að hægt verður að fylgjast með okkur þar.
En fyrir þá félagsmenn sem hafa fengið það á tilfinninguna að ekkert sé í gangi, þá skil ég það vel. En ýmislegt er samt búið að gerast og er í farveginum. Félagið er nú skráð og komið með kennitölu. Bankareikningur á nafni félagsins verður fljótlega stofnaður og verður hann notaður fyrir styrki sem félagið fær og í tengslum við allt félagsstarfið. Umsóknin er lent hjá stjórn HSK og mun hún funda 16. júní. Og þá fær félagið bráðabirgðaaðild að HSK sem þýðir að við erum komnir með keppnisleyfi um leið og við erum búnir að útbúa samþykkta braut. Þannig að félagið er komið í gott stand í pappírsmálum.
Og varðandi peysurnar, að þá fæ ég tilboð frá Merkt í pöntunina í næstu viku og ef mér líst vel á það sem þeir bjóða mun ég taka niður nöfn þeirra sem vilja peysu og panta á allt liðið. Vonandi taka allir þátt í því og verða duglegir að ganga í peysunum.
Heimasíðan hefur reyndar setið svolítið á hakanum undanfarið vegna undirbúnings við ferðina, en það mun breytast, vonandi í ferðinni með ferðasögum og myndum og eftir ferð.
Einnig mun birtast í næsta Pésa létt kynning á félaginu og þar verður einnig auglýst eftir svæði, ef einhver landeigandi skyldi vera tilbúin í þetta verkefni með okkur.

EL GRJÓNÓ