þriðjudagur, 24. júlí 2007

Peysur, mót, nýir félagsmenn og Hekluferð.

PEYSUR. Jæja, Merkt er búið að senda mér tilboð í peysur á alla. Og ef við tökum peysur með öllum logo-unum og náum nógu stórri pöntun þá getum við fengið hverja peysu á 6.800 kr. Það er gott verð miðað við að þetta eru góðar peysur og á þeim eru mörg merki. Þannig að nú vill ég að allir sem vilja peysu láti vita sem allra fyrst. Og þá þarf líka að tilkynna nafn sem á að koma framan á peysunum og stærð. Þetta eru svartar órenndar hettupeysur og þær hafa reynst hlýjar. Ég, Ágúst og Egill fengum okkur allir X-large því þessar peysur minnka aðeins við fyrsta þvott. Og er mín t.d. mjög passleg eftir það. Large hefði verið í það minnsta fyrir mig. Gummi er í XX-Large og því bendi ég þeim sem vita ekki hvaða stærð þeir þurfa og hafa ekki tök á að komast til Reykjavíkur í Merkt að máta, að reyna að fá að máta hjá einhverjum okkar til þess að sjá hvaða stærð þið þurfið. Fyrir yngri strákana sem sjá kannski ekki hvaða stærð þeir þurfa ættu þá bara að fara í Merkt í Faxafeni og máta peysu þar. Fyrirtækið Merkt er í sama húsi og 66 gráður norður og er það "Hagkaups-megin" á húsinu. Ég ætla að fara þangað með félagaskránna og þá getið þið bara sagst vera að koma til þess að máta peysu og látið þá bara merkja við ykkur á listanum. Þar læt ég þær merkja inn stærð og nafn sem á að koma á peysunni. Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast hjá mér í s: 866-9035 eða e-mail á hreppakappar@gmail.com . Ég hendi hérna inn myndum sem ég hafði og sýna þessar peysur nokkuð vel. Og því fyrr sem ég fæ að vita hverjir ætla að fá, því betra.




MÓT. Við stefnum á að hafa motocross-mót innan félagsins um verslunarmannahelgina. Í rauninni ætlum við að henda upp lítilli æfingabraut og eiga góðan dag. Og reyna að krýna motocross-kóng Hreppakappa 2007. Hvetjum við alla til þess að mæta en við auglýsum það nánar þegar það skýrist. ATH.ATH. Einungis skráð hjól mega taka þátt í mótinu. Enn er tími til þess að redda skráningu og númeri á óskráð hjól fyrir keppni og þið eruð ekki bara að skrá hjólin fyrir keppni, það margborgar sig að hafa hjólið skráð og tryggt.
NÝJIR FÉLAGSMENN OG HEKLUFERÐ. Ég og Jón Þór skruppum að rótum Heklu síðasta laugardag ásamt tveimur hjólurum úr borginni. Á næstu dögum koma inn myndir og jafnvel myndbönd frá því. Þar áttum við góðan dag því það er alltaf gaman að hjóla við Heklu. Svo fór það þannig að þessir tveir hjólarar gengu í félagið. Þið getið séð hverjar ÞÆR eru í félagaskránni. Þannig að nú stefnir í að við getum bráðlega verið með stelpulið í motocrossinu. Þannig að ég býð nýju félagskonurnar velkomnar. Og eru þær ekki þær einu sem eru gengnar í félagið heldur eru einn Gnúpverji búinn að ríða á vaðið og er það Árni Már Einarsson sem kom til liðs við okkur og býð ég hann velkominn líka. Ég á reyndar eftir að skrá hann í félagaskránna. Og ég ætla að nýta tækifærið og hvetja menn til þess að senda mér myndir fyrir félagaskránna og láta mig vita ef ný tæki hafa bæst við hjá eigendum.

Ekki fleira í bili. Endilega látið mig vita með peysurnar sem fyrst.

EL GRJÓNÓ

Engin ummæli: