fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Peysur, fundur og lítið fleira...

Fyrir ykkur sem voruð búnir að panta peysurnar, þá eru þær hjá mér og þið þurfið bara að vera í sambandi við mig þegar þið komið í bæinn. En það gengur reyndar ekki núna um helgina því ég er að skreppa til Danmerkur.
Og mér sýnist allt stefna í fund seinustu helgi ársins, þarf bara að ákveða hvort ég hafi það á sunnudegi eða laugardegi. Ef einhver hefur ákveðnar skoðanir á því má hann/hún tjá sig í athugasemdum. Dagskrá fundarins ætti að koma inn fljótlega eftir að ég kem heim aftur.

EL GRJÓNÓ

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

CTi spelkur...



Og enn af öryggisbúnaði. Þetta er CTi spelkan frá Össur hf. Þetta er samkvæmt þeim sem hafa reynt, besta hnéspelkan sem fæst í dag. Reyndar er hún líka dýr, en þegar á brattann sækir, er hún hverrar krónu virði. Hér gildir það sama og með kragann, þú tryggir ekki eftir á. Ástæðan fyrir háu verði á þessu dóti er að þetta er búið til úr fisléttu en níðsterku koltrefjaefni svo að það fari sem minnst fyrir þessu þegar maður er að hjóla en það ræður við lætin þegar þau koma. MotorMax selur staðlaðar spelkur en hægt er að fá þær sérsmíðaðar í Össur.
Smellið HÉR til þess að sjá CTi síðuna hjá Össur.
Og smellið HÉR til þess að sjá CTi síðu MótorMax.

EL GRJÓNÓ

miðvikudagur, 21. nóvember 2007

Leatt-Brace...



Já strákar, öryggið skiptir miklu máli í þessari íþrótt og þetta er það nýjasta í öryggisbúnaði fyrir motocross-ið. Þessi kragi virkar mjög vígalegur á mann en samkvæmt prófunum gerir hann sitt gagn. Það hafa nokkrir dottið úr atvinnumennsku síðustu ár vegna lömunar og talið er að þessi kragi hefði getað bjargað því. En það er samt ekki beint hægt að líkja akstrinum á þeim mönnum við það sem við erum að gera. Hraðinn þarna úti er orðinn ótrúlegur. Og stökkin sem fylgja því eru súrrealísk m.v. að þau eiga sér stað í kappakstri en ekki freestyle eða free-ride. Alla veganna, þessi kragi kostar sitt en skilar því fyllilega á ögurstundu. Munið, þú tryggir ekki eftir á. Nítró á von á fyrstu sendingunni og verður fróðlegt að sjá hvað gripurinn mun kosta þar. HÉR getiði skoðað heimasíðu framleiðandans.

EL GRJÓNÓ

mánudagur, 19. nóvember 2007

Loftpúðar fyrir mótorhjól...



Það getur verið magnað að sjá hvað mönnum dettur í hug og hér eru menn að reyna að yfirfæra loftpúðatæknina yfir í mótorhjólin. Ég verð nú að viðurkenna að ég hefði viljað hafa þennan á neðra myndbandinu þegar ég datt á CBR-inu mínu 2005.





EL GRJÓNÓ

sunnudagur, 18. nóvember 2007

2 hjól vs 4 hjól...

Ég heyrði um daginn einhvern segja að hann langaði meira í fjórhjól heldur en motocross-hjól (krossara). Og hluti af ástæðunni var sú að hann vildi ekki slasa sig. Og einhverjir virðast velta því fyrir sér hvort skuli frekar fá sér. Og ef einhverjir Hreppakappar skyldu vera að velta þessu fyrir sér skal ég koma með kosti og galla í bland við mitt álit.

FJÓRHJÓL


Svona hjól er t.d. með mjög svipaðan mótor og RMZ450 krossarinn. Reyndar var þetta hjól komið með innspýtingu á undan krossaranum, en hann er einmitt að fá hana 2008. Fyrsti krossarinn með innspýtingu. Og er Quadracer-inn einmitt dæmi um fjórhjól sem kæmi í stað krossara vegna svipaðra eiginleika. Vafalaust er þetta mjög skemmtilegt hjól. Það er 165 kíló með 5 gírum og diskabremsum. En þá kemur notagildið á móti. Krossarinn hefur ekki endalausa möguleika á svæðum. Svona fjórhjól hefur minni möguleika því að fjórhjól eru bönnuð í einhverjum af motocross-brautum landsins ef ekki öllum. Og þegar við komum okkur upp alvöru braut verður okkar fyrsta verk að loka á fjórhjól í henni. Þau grafa brautina rosalega og persónulega vildi ég ekki fá fjórhjól á mig þar sem ég væri á krossara. Svona hjól er líka 300.000 - 500.000 krónum dýrara en krossari. Viðhald á mótor er örugglega það sama, þetta er með 3 dempara eins og krossari sem hafa örugglega sama viðhald og demparar á krossara. Þarna eru reyndar 3 bremsudiskar og dælur og svo 4 dekk. Þó að svona hjól slíti örugglega ekki dekkjunum jafn mikið og krossarinn þá eru það alltaf 2 dekk í hvert skipti sem þarf að skipta að aftan.
Þannig að eins og staðan er núna myndi ég velja krossarann fram yfir svona fjórhjól þegar kemur að alvöru leiktæki með hráa orku og ekkert aukadót. Það eina sem kæmi til greina í fjórhjóli, væri götuskráður vinnuvargur sem ég gæti notað við veiðar eða í vinnu. Og þó að möguleiki væri að fá svona Quadreacer götuskráðan, þá myndi SuperMOTO hafa vinningin þar. Ég er ekki að segja mönnum að fá sér ekki fjórhjól, spáið alla veganna í notagildinu og ekki forðast krossarann af því að einhver segir að það sé hættulegra. Því það er einfaldlega ekki satt.

EL GRJÓNÓ

Staðalbúnaður...



Vatnskassahlífar. Vatnskassar eru dýrir en það eru þessar hlífar ekki. Notkun þessara hlífa hefur aukist mjög vegna þess að þær hafa sannað gildi sitt. Og hef ég mjög öruggar heimildir fyrir því að Íslandsmeistarinn í MX2 keyri ekki hjólið sitt án svona hlífa. Þær verða alla veganna komnar í nýju Honduna áður en það verður tilkeyrt. Þessar sem þið sjáið þarna eru frá Works Connection og tók ég myndina af síðunni þeirra. Þeir smíða þetta í öll hjól nema einhverjar einnota kínverskar druslur. En það eru að sjálfsögðu ekki hjól heldur rusl. Nítró er með umboðið fyrir Works Connection þannig að ef þeir eiga það ekki til á lager í hjólið þitt geta þeir örugglega reddað því. Annars er E-bay líka möguleiki ef þið eruð ekki internet hræddir.

EL GRJÓNÓ

laugardagur, 17. nóvember 2007

Verzló-MOTO 2007...


Online Videos by Veoh.com

Og líka HÉR.

Núna er síðasta myndbandið komið inn. Loksins. Reyndar er smá klúður með tónlistina í lokin, þetta verk hefur bara ekki verið tekið út með sældinni en það má alveg horfa fram hjá því. Þannig að njótið bara vel. Það er líka komið inn í myndbandalistann til hliðar.

EL GRJÓNÓ

fimmtudagur, 15. nóvember 2007

Testósterón 2007...


Online Videos by Veoh.com

Smellið samt frekar HÉR til þess að horfa.

Nú er heimildamyndin góða komin inn aftur. Einhver tók hana út vegna höfundarréttarlaga. Sem ég skil ekki. Hún var tekin upp á mína myndavél af mér og klippt til á minni tölvu af mér. Efast um að forsvarsmenn Metallica, Rage against the machine eða Moby hafi verið að horfa á þetta myndband frá Íslandi. Þannig að það er einhver sorglegur einmanna maður sem hatar allt og alla sem hefur verið að skemma fyrir okkur. EN nú er hún komin aftur og einnig í myndbandalistann. Njótið vel...

EL GRJÓNÓ

miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Traktorstorfæra 2007...


Online Videos by Veoh.com
Mæli samt eiginlega frekar með því að smella HÉR en að horfa á það á þessari síðu.
Þið þurfið að trúa til þess að sjá. Og hér getið þið séð myndbandið úr heimsmeistaramótinu sem haldið var á Flúðum um verslunarmannahelgina 2007. Ég ætla ekki að tjá mig mikið meira um mótið heldur bara leyfa myndbandinu að segja það allt. Nema kannski að það er ekki oft sem maður þarf "snorkel" í traktor. :)

Ég setti hér inn til hliðar lista yfir myndböndin sem félagið hefur gefið af sér. Þar má sjá götuspyrnumyndbandið, Testó 2007 og svo er myndbandið úr head2head mótinu um verslunarmannahelgina komið í vinnslu. Ég vona að það komist inn á næstu dögum. Og þegar þetta er skoðað sér maður að þetta verður að teljast ágætt miðað við að þetta er fyrsta starfsár félagsins og mér finnst við ekki hafa gert neitt.

Einnig henti ég inn skoðannakönnun sem ég vill að menn svari. Þannig er mál með vexti að við þurfum að halda aukaaðalfund til þess að samþykkja lagabreytingarnar og kjósa Jón Þór inn í stjórnina. Þannig að mér datt í hug, hvort það væri ekki sniðugt að hittast á Útlaganum, horfa á öll myndböndin okkar á skjánum og halda síðan fundinn. Og þá er málið, hvenær eru allir heima við? Þannig að ég vill vita hvort menn séu opnir fyrir því að hittast síðustu helgina á árinu eða hvort einhverjum finnist það guðlast og dónaskapur. Þeim sem finnst það guðlast og dónaskapur velja bara "Nei" í könnuninni og mega gjarnar tjá sig í athugasemdum með tillögu að öðrum tíma.

EL GRJÓNÓ

þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Skills 2 æfingamyndbandið...



Þessi DVD-diskur er á leiðinni til landsins með mínu nafni á honum. Ef maður stefnir á að verða sér alla veganna ekki til skammar þá verður maður líka að vinna heimavinnuna. Og vona ég að þessi diskur komi til með koma að góðu gagni. "HÉR" má sjá trailerinn og umfjöllun. Þarna er bæði fjallað um viðhald og einnig flest allt sem kemur að því að hjóla. Og svo þegar ég er kominn með hann, mun ég segja hvað mér finnst um hann. Og þeir sem hugsa núna að þeir geti bara fengið hann lánaðan geta strax gleymt því af því að hann fer ekki úr tækinu þessi.

EL GRJÓNÓ

mánudagur, 12. nóvember 2007

Opinn fundur...

Fékk þetta fundarboð frá Umhverfisnefnd MSÍ;

------------------------------------------------------------------------------
Ágæta félagsfólk og annað áhugafólk um vélhjólamennsku

Mánudaginn 19. nóvember stendur umhverfisnefnd Mótorhjóla- og snjósleðasambands Íslands (U-MSÍ) fyrir opnum félagsfundi í húsakynnum ÍSÍ í Laugardalnum (Engjavegi 6), Reykjavík. Fundurinn hefst kl. 19:30 og stendur til 21:30.

Markmið fundarins er að upplýsa félagsfólk, sem og aðra þá sem áhuga hafa á vélhjólamennsku, um það starf sem unnið er í nefndinni og hvers megi vænta á næstu misserum í hagsmunabaráttu okkar fyrir bættum réttindum. Við erum alltaf að leita að góðu fólki með okkur í nefndina, og gefst á fundinum kjörið tækifæri til að kynnast þeim verkefnum sem nefndin er að vinna að.

Í nefndinni sitja Jakob Þór Guðbjartsson, formaður, Leópold Sveinsson, Gunnar Bjarnason, Einar Sverrisson, Ólafur H. Guðgeirsson og kannski þú.

Dagskrá fundarins er sem hér segir:

19:30 -19:45 Setning fundar, kynning á nefndinni og fyrir hvað við stöndum.

19:45 - 20:15 Hvað er framundan - verkefnin okkar.
Á þeim þremur árum sem nefndin hefur starfað hefur mikið vatn runnið til sjávar og nefndarmenn orðnir reynslunni ríkari. Á þessum tíma hafa komið upp margar góðar hugmyndir að verkefnum, sem einhverja hluta vegna hafa ekki náð flugi. Það er ætlun okkar á félagsfundinum að kynna þessi verkefni og þannig leggja línurnar fyrir starf næsta árs.

20:15 - 20:30 Hugvekja fá Siv Friðleifs
Siv Friðleifsdóttir, alþingiskona, hefur í gegnum árin látið hagsmunabaráttu vélhjólafólks sig varða, enda mótorhjólakona sjálf. Reynsla hennar af stjórnmálum, nefndarstörfum, ráðherramennsku og stjórnsýslu gerir henni kleift að sjá hagsmunabaráttu vélhjólafólks með öðru ljósi en hinn almenni vélhjólanotandi. Siv mun segja okkur frá reynslu sinni.

Hlé

20:45 - 21:05 Kynning á skýrslu vinnuhópu Umhverfisstofnunar, aðdragandi og væntingar.
Í eitt og hálft ár hefur umhverfisnefndin starfað í vinnuhópi Umhverfisstofnunar, ásamt Sambandi Íslenskra sveitarfélaga, Landvernd og Vegagerðinni. Vinnuhópnum er ætlað að koma með hugmyndir að framtíðarskipulagi á aðstöðu og lagaumhverfi sem uppfyllir þarfir þeirra sem aka um á vélhjólum, með það að markmiði að sporna gegn utanvegaakstri. Starfi vinnuhópsins fer senn að ljúka og verður skýrslan brátt send til ráðherra. Ætlunin er að kynna efni skýrslunnar, stöðumati og þeim hugmyndum sem U-MSÍ leggur til.

21:05 - 21:30 Skipulagsmál á Mosfellsheiði og jaðarsvæðum.
Sífellt er þrengt að vélhjólafólki í kringum höfuðstaðinn, sem og annarsstaðar, bæði er verið að loka leiðum eða taka þær undir aðra notkun, t.d. sem reiðleiðir. Rödd vélhjólafólks er ekki nógu sterk þegar kemur að skipulagsmálum og er þessum skipulagshugmyndum ætlað að vekja vélhjólafólk til umhugsunar um mikilvægi þess að skipuleggja akstursleiðir. Birt verða drög að skipulagi fyrir Mosfellsheiðina og jaðarsvæði hennar. Skipulagið afmarkast af Hafnarfirði, Kleifarvatn, Bláfjöll, norðan við Þorlákshöfn, Hveragerði, Selfoss, Þingvellir, Esjan og Reykjavík.

21:30 Fundi slitið. Umræður.


Með von um góða mætingu,
U-MSÍ
------------------------------------------------------------------------------

Þetta er opinn fundur þannig að það eru allir velkomnir. Þetta er reyndar á sama tíma og BOX-æfingin hjá mér en ég er að hugsa um að skella mér á hann og fórna æfingunni. Þó það muni taka mjög á mig andlega. Það gæti verið mjög gagnlegt að sjá hvað fer fram á þessum fundi. Ef einhver annar ætlar að fara á hann hringja í mig og þá "Köppum" við svæðið. Annars mun ég bara "Kappa" það.

EL GRJÓNÓ

Boðorðin 10, traktorstorfæran og Travis Pastrana...

ÉG sá um daginn í fréttum að á Ítalíu fundust boðorðin 10 hjá mafíunni. Þannig að ég skellti þeim í gríni hér inn og svo fyrir neðan aðlagaði ég þau að AHK. Kannski maður leggi til á næsta aðalfundi að þessu verði bætt inn í lagasafn AHK. Aldrei að vita.


Svona voru þau upprunalega hjá mafíunni.
1. Enginn má kynna sig beint til vina okkar. Það verður alltaf að gerast í gegnum þriðja aðila.
2. Aldrei horfa á eiginkonur vina.
3. Aldrei láta sjá þig með lögreglunni.
4. Ekki fara á bari eða klúbba.
5. Að vera alltaf reiðubúinn fyrir Cosa Nostra er skylda – jafnvel þó konan þín sé að fæða barn ykkar.
6. Algjör virðing verður að vera fyrir fundum.
7. Eiginkonum verður að sýna virðingu.
8. Þegar þú ert spurður um upplýsingar, verður svarið að vera sannleikurinn.
9. Ekki má ráðstafa fé ef það er í eigu annarra eða annarra fölskyldna.
10. Fólk sem getur ekki orðið hluti af Cosa Nostra: hver sá sem á náin ættingja í lögreglunni, hver sá sem er með svikara í fjölskyldunni, hver sá sem hagar sér illa og fer ekki eftir siðarreglum.

Svona eru þau fyrir Hreppakappana.
1. Enginn má kynna sig beint til vina okkar. Það verður alltaf að gerast í gegnum þriðja aðila.
2. Aldrei setjast á hjól/sleða vina.
3. Aldrei láta sjá þig með lögreglunni.
4. Ekki fara á bari eða klúbba nema vera vel til hafður og svalur ef þú ætlar að segja einhverjum að þú sért Hreppakappi.
5. Að vera alltaf reiðubúinn fyrir Hreppakappa og hjólamennskur. Jafnvel þó konan þín sé að fæða barn ykkar.
6. Algjör virðing verður að vera fyrir fundum/leiktækjum og hjólamennskum.
7. Leiktækjum verður að sýna virðingu.
8. Þegar þú ert spurður um upplýsingar, verður svarið að vera sannleikurinn.
9. Ekki má ráðstafa hjóli/sleða ef það er í eigu annarra eða annarra fölskyldna.
10. Fólk sem getur ekki orðið hluti af Hreppaköppum: hver sá sem á náin ættingja í Team Morgan, MX Árborg eða Vinstri-grænum, hver sá sem er með svikara í fjölskyldunni, hver sá sem gengur ekki frá verkfærunum og er alltaf í "goone-ride" þó hann sé ekki að reyna það.

SVO er ég búinn að gera nokkrar tilraunir til þess að klippa saman myndbandið úr traktorstorfærunni sem var núna um verslunarmannahelgina en hef verið að lenda í miklum tölvuvandræðum. Mynd af Bill Gates og "Error Report" glugganum verða á BOX-púðanum á næstu æfingum. En myndin mun koma hingað inn um leið og hún verður tilbúin.

OG að lokum vill ég benda mönnum á ruglaðasta mann veraldar. Hann heitir Travis Pastrana. Hann er fæddur 1983 og á sér engin takmörk þegar kemur að því að gera ruglaða hluti. Hann er margfaldur freestyle-meistari, motocross-meistari og hann varð Ameríkumeistari í ralli núna í ár. Hann hefur einmitt verið höfuðpaurinn á bak við Nitro Circus myndböndin, fyrir þá sem það þekkja, og var fyrstur allra í heiminum til þess að taka tvöfalt heljarstökk á motocross-hjóli. HÉR er heimasíðan hans og HÉR má sjá myndband af honum úr rallinu. Viðbrögð hans við veltunni segja allt sem segja þarf um manninn. Ég mæli eindregið með því að fletta upp fleiri myndböndum með honum á YouTube.

EL GRJÓNÓ

fimmtudagur, 8. nóvember 2007

Til skammar...

Já, það má með sanni segja að þetta sé til skammar. Við erum ekki að standa okkur í þessu. En það er bara brjálað að gera hjá okkur umsjónarmönnum. Við því er ekkert að gera. Við verðum að bæta úr þessu þegar tími finnst. En ég ætla að skella hér inn nokkrum pælingum.

Smá breyting varð á lögunum okkar vegna þess að UMFÍ var að uppfæra lög sem stönguðust á við okkar. Það voru engar stórar breytingar, bara orðalag. Og jafnframt þurftum við að bæta einum í stjórn, því að þó að Egill hafi verið varamaður þá var hann greinilega með kosningarétt á stjórnarfundum og því vantaði oddamann. Það leiddi til þess að Jón Þór Tómasson er nú kominn í stjórn Hreppakappa sem varaformaður og meðstjórnandi. Þannig að þið megið líka rífast í honum og hann er fyrsti maður til þess að tala við ef ykkur líkar það illa við mín verk að þið viljið losna við mig. Og ég býð Jón Þór velkominn í stjórnina fyrir hönd stjórnarinnar.

Ég fór þann 3. nóvember s.l. á fyrsta formannafund MSÍ. Þar voru saman komnir flest allir formenn akstursíþróttafélaga innan MSÍ. Alla veganna frá félögunum sem skipta einhverju máli. ;)Það var gaman að sitja þann fund þar sem ýmislegt var rætt. T.d. keppnisfyrirkomulag 2008 og keppnisdagatalið. Svo seinna um daginn á sama stað var haldin verðlaunaafhending MSÍ fyrir keppnisárið 2007. Ég mætti þangað líka og sá Einar, Valda, Binna, JóaKef, Aron, Kareni og alla hina taka á móti verðlaununum.

8 nýjir félagar streymdi inn í félagið um daginn. Þeir voru Tómas Þórir, bræðurnir Axel og Eiríkur frá Sandlæk, Einar Einarsson, Guðjón Steinþórsson, Villi frá Skeiðháholti, Villi Þór stuntman sem stekkur á Hondunni af TOYOTA-SCANIUNNI í American Style auglýsingunni og að lokum tel ég upp manninn sem sá um að skrá Skeiðamennina og Gnúpverjana en það er hann Ólafur Freyr frá Björnskoti. Og býð ég þá velkomna í félagið.

Ný hjól streyma líka í félagið. 2008 Honda CRF450-R (MITT), 2008 Honda CRF250-R, 3 ný 2008 Suzuki RMZ-450 með innspýtingunni og svo býð ég eftir því að Begga fái sér Hondu!! :)

Ég föndraði nýjan haus á síðuna, vona að hann sé nógu cool og smooth fyrir þetta félag. Puff, hvað er ég að bulla. Auðvitað er hann nógu cool og smooth. Ég bjó hann til, ég er á honum og Hondan er að hafa KTM-ið. Fullkomið.

Hef ekkert meira eins og er. Ég minni bara enn og aftur á það að það væri frábært ef við heyrðum eitthvað frá félagsmönnum. Hvað finnst þeim um félagið? Hvað finnst þeim vanta? Hvað vilja menn gera? Hvað vilja menn gera betur? Hvað finnst þeim um stjórnina? Eru einhverjar breytingar hjá mönnum varðandi tækjaeign? Félagið getur verið fært um ýmislegt, en það framkvæmir ekki hugmyndir sem koma ekki upp á yfirborðið. Hvað viljiði? Og ég vill fá að heyra frá öllum. Er eitthvað sem við getum gert fyrir yngstu mennina í félaginu? Vilja þeir námskeið í viðhaldi og hjólamennsku? Eigum við að reyna að fá einhver snilling til þess að halda demparanámskeið? Eigum við að reyna að fá snilling til þess að kenna okkur að hjóla? Eigum við að safnast saman sem höfum náð aldri og skemmta okkur með fullorðinsaðferð? Eigum við að fara í lautarferð? Alla veganna.... Látið í ykkur heyra.

Og endilega segið mér hversu töff nýji hausinn er... :)

EL GRJÓNÓ