sunnudagur, 30. desember 2007

Fundur og körfubolti...

Í gær var haldinn aukaaðalfundur félagsins. Þar voru lagabreytingarnar samþykktar og stjórninni breytt. Sem þýðir að núverandi stjórn samanstendur af sömu mönnum í sömu stöðum að því undanskildu að Egill er ekki lengur í stjórn en inn komu Jón Þór og Berglind. Jón Þór er einnig meðstjórnandi og varaformaður. Þakka ég Agli fyrir sín störf og býð ég nýju stjórnarmennina velkomna.
Mér fannst mæting ekki vera alveg í samræmi við það sem ég var búinn að heyra frá mönnum. En svo heyrði ég í dag að í samanburði við annað ónefnt félag var hlutfallið mjög gott.
Myndbönd félagsins runnu í gegn fyrir fundinn og svo tóku við umræður. Nokkur atriði voru tekin fyrir í liðnum Önnur mál. Hér fyrir neðan ætla ég að fjalla stuttlega um þau mál.
Félagsgjöld. Félagsgjöld verða sett á í félaginu núna eftir áramót. Þau hljóða upp á 5.000 krónur á hvern meðlim á og yfir 17 ára aldri (þeir sem verða 17 ára árið 2008 greiða félagsgjöld). Öðruvísi verður staðið að félagsgjöldum fyrir þá sem eru yngri en 17 ára. Og verður sá háttur hafður á að þeir sem ekki verða búnir að greiða 5.000 krónur í félagsgjöld þann 15. febrúar 2008 inn á reikning Hreppakappa verða teknir af félagaskrá. Nánari upplýsingar um bankareikninginn koma seinna.
Einnig var rætt um keppnisárið 2008. Ætlunin er að koma með fullgilt keppnislið í Íslandsmótið í MX og Enduro. Þeir sem verða í liði skuldbinda sig til þess að mæta í öll mót og sinna sportinu af metnaði. Hins vegar geta þeir sem vilja prófa, tekið þátt í bikarmótum og kannski Langasandskeppninni.
Rætt var um ábyrgð félags á hegðan félagsmanna og beindi stjórninn þeim tilmæla til félagsmanna að þeir endurspegli félagið og fari því að gát en jafnframt sé félagið ekki forráðamaður félagsmanna.
Estró-Testó-2008 var líka rædd. Tekin voru niður nöfn þeirra sem hafa hug á að fara. Til þess að auðvelda stjórninni starfið við að skipuleggja ferðina, þ.e. finna gistingu, velja daga og finna út aðferð við að flytja fólk, hjól og fatnað milli staða ætlum við að setja skráningarfrest og skráningargjald. Þannig að þeir sem ætla sér að koma með, greiða 5.000 króna skráningargjald á sama tíma og þeir greiða félagsgjöldin. Þannig að 15. febrúar verður komið á hreint hverjir verða áfram í félaginu og hverjir ætla í ferðina. Þeir sem ákveða að koma með í ferðina eftir 15. febrúar verða að redda sér að öllu leyti sjálfir. 5.000 krónurnar sem greiddar verða inn á ferðina fara í kostnað við að leigja bíl undir mannskapinn. Því upp kom sú hugmynd að leigja Econoline þar sem 16 manns eru þegar skráðir í ferðina. Lagt verður af stað í ferðina mánudaginn 9. júní og komið verður heim 16., 17. eða 18. júní. Ekki er fullbúið að skipuleggja ferðina en nú er um að gera að menn skrái sig inn á spjallið svo þeir geti tekið þátt í undirbúningnum.

Svo í dag mættu Hreppakappar með lið í firmakeppni UMFH í körfubolta og stóð Team Hreppakappar uppi sem sigurvegarar. Keppti liðið fyrir hönd Gunnbjarnarholts og hlutu þeir að verðlaunum einn hring á Golfvellinu í Ásatúni. Erfitt reyndist hins vegar að manna lið Hreppakappa og var því einn maður í liðinu sem er ekki skráður Hreppakappi. Það var hann Árni Þór Hilmarsson frá Syðra-Langholti og þökkum við honum kærlega fyrir samstarfið.

Fleira var það ekki að sinni en ég vill benda félagsmönnum á eitt gott orðatiltæki sem mun auðvelda stjórninni sitt starf við skipulag félagsstarfs:

"Don´t talk the talk if you can´t walk the walk!"

EL GRJÓNÓ

miðvikudagur, 19. desember 2007

Jólahjólið í ár.


Ducati Monster S2R 1000. Dekurhjól. 2.850km. Skr. 06/2006. Jólahjólaverð: 990þ („rétt verð“ 1.250þ) S: 690 1025 Sturla. Kaupandi verður að vera smámunasamur og lofa að fara vel með hjólið"

mánudagur, 17. desember 2007

Að skrá sig inn á spjallið...

Ég flýtti mér aðeins of mikið þegar ég sendi öllum póst varðandi spjallið. Ég var að komast að því að notandi verður að vera með Google-account til þess að nota það. Þannig að sleppið því bara að smella á linkinn sem fylgdi póstinum sem ég sendi fyrst frá Groups.
Það sem þið þurfið að gera er að fara á http://gmail.com og fá ykkur aðgang þar. "Stofna nýjan aðgang" Þar fylgið þið einföldum skrefum og gangið frá skráningunni ykkar. Ekki hafa áhyggjur, þið eruð ekkert að skuldbinda ykkur og þetta kostar ekkert. Þetta er ekki heldur með Herpes virkni. Þið getið alveg losnað undan þessu. Þegar þið eruð búin að gera þetta, þá farið þið inn á http://groups.google.com/group/akstursirottafelag-hreppakappa og þar sjáið þið það sem er á myndinni fyrir neðan. Smellið á það sem ég merkti á myndinni. Þá kemur upp önnur síða þar sem stendur: "Sendu línu ef þú vilt aðgang." Þar skrifið þið nafnið ykkar og biðjið um aðgang. Ég samþykki það síðan og þá eruð þið orðnir fullgildir notendur að spjallinu. Síðan getið þið sett inn upplýsingar um ykkur og mynd. Og þá getið þið tjáð ykkur um allt saman og tekið þátt í umræðunni sem fram fer.

Og síðan er fljótlegast að komast inn á spjallið í framtíðinni með því að smella á "Spjallið" niðri til hægri undir "Tengt félaginu". Sendið mér línu á hreppakappar@gmail.com ef það vefst eitthvað fyrir ykkur.

Smá Top Gear spoiler...

Ég sá þetta á netinu og held að þetta hafi örugglega ekki verið í seríunni sem sýnd var núna síðast á Íslandi. Þannig að ég er þá að sýna efni úr næstu seríu. Sleppið því bara að horfa ef þið viljið bíða eftir Skjá Einum. En alla veganna, þetta myndband sýnir bara að Þjóðverjar gjörsamlega eiga bílaþróun með húð og hári, eða lakki og innréttingu.


EL GRJÓNÓ

sunnudagur, 16. desember 2007

Stupid hurts...

Ef þið eigið 850 bretti, mikið af plötum, vespu og ofboðslega mikið af frítíma þá er hérna svolítið sem þið getið gert.

Og svo má ekki gleyma fyrstu ferðinni.


Já, mér er bara orða vant.

EL GRJÓNÓ

Vinnan að baki metunum...


Ég sá á Morgan.is að það eru tveir menn að reyna við lengdarmetið í stökki á motocross-hjóli. Sá sem kom á undan inn ætlaði að reyna við 350 fet minnir mig og nú er komin færsla um annan sem ætlar að reyna að toppa 400 fet. Og svona til þess að skjalfesta og þinglýsa alvörunni í því að þá eru 300 fet 91,44 metrar og 400 fet eru 121,92 metrar!! Hérna að ofan er hægt að sjá metið á vélsleða sem sett var í apríl 2006. Það er upp á 238 fet eða 72,54 metra. Og svo fyrir neðan er hægt að sjá sama mann bæta sitt eigið met í mars 2007 og þá nær hann 245 fetum eða 74,67 metrum. Og seinna metið er sett í veðri sem Ísland ætti að vera stolt af.

Reyndar veit ég ekki hvort hann sé búinn að reyna meira. Hann stefnir á 300 fetin. Ég þarf að leita að því.

EL GRJÓNÓ

ps. Setti hér inn hægra megin "Heyrst hefur..." um daginn. Þar set ég inn slúður og vitleysu sem ég heyri "utan úr bæ". Reyni að uppfæra það reglulega.

Metnaður og ástríða...


Fékk þessa mögnuðu mynd frá Jónsa einn kaldann desembermorguninn. Hún segir allt sem segja þarf. Sleðinn og hjólin í bakgrunninum á meðan skrúfurnar rjúka í dekkin. Og hugarfarið í góðu standi á meðan. Þetta er alvöru metnaður og vildi ég að ég ég væri búinn með skólann svo ég gæti verið á fullu líka. En það kemur að því með nýju ári. Ég held að þessi mynd sé góð í að minna okkur á að gera það sem okkur finnst gaman og ekki láta neinn aftra okkur frá því að leika okkur. Við verðum að varðveita barnið í okkur og nú megum við gera það með 55+ hesta í klofinu. Ég er mjög ánægður með val mitt/hugans/líkamans á áhugamáli.

EL GRJÓNÓ

ps. minni á fundinn 29. des.

þriðjudagur, 11. desember 2007

fimmtudagur, 6. desember 2007

Speki að mínu skapi...


"Biking, Bonking and Boozing"
"The three great pleasures of life"

Meira Ogri HÉR.

Ég verð bara að segja að ég verð að vera alveg sammála þessari speki og að mínu mati er þetta það sem fær heiminn til þess að snúast. Hins vegar vona ég að enginn blandi saman lið 1 og 3. Allt annað er leyfilegt. :)

EL GRJÓNÓ

miðvikudagur, 5. desember 2007

Kæru Hreppakappar, aðrir Hrunamenn, nágrannar og velunnarar...

Vegna lagabreytinga UMFÍ þurfum við að breyta lögum okkar örlítið og þá einnig stjórninni. Þessar breytingar þarf að samþykkja á fundi til þess að geta sent lögin til UMFÍ. Og því fannst okkur í stjórninni tilvalið að hittast síðustu helgi ársins og halda aukaaðalfund á Útlaganum. En við ætlum ekki bara að hafa fund. Við ætlum að byrja á því að horfa á öll myndböndin sem hafa orðið til við starfsemi félagsins. Svona lítur dagskráin þá út laugardaginn 29. desember 2007:

Klukkan 14:00 Götuspyrnan – myndband frá fyrsta móti Hreppakappa. En þar tók Erlingur Þór þátt í götuspyrnunni á Akureyri.

Klukkan 14:05 Moto-verzló – myndband frá fyrsta mótinu sem Hreppakappar héldu. Og var það motocross í Hverabakkagryfjum með maður-á-mann keppnisfyrirkomulagi.

Klukkan 14:30 Traktorstorfæran 2007.

Klukkan 15:00 Testó 2007 – heimildamyndin um hringferðina sem stjórnin fór.

Klukkan 16:00 Fundur

Dagskrá fundar:

1. Setning
2. Kjör fundarstjóra og fundarritara.
3. Tillögur til lagabreytinga og aðrar tillögur lagðar fram.
4. Umræður um tillögur, sem fram hafa komið.
5. Kosning laga.
6. Kosning formanns.
7. Kosning stjórnarmanna.
8. Önnur mál.
9. Fundargerð lesin upp til samþykktar.
10. Fundarslit.

Erfitt er að áætla fundarslit. Umræður gætu skapast og einnig gæti allt runnið ljúft í gegn og tekið því bara stutta stund. Allir eru velkomnir þó að félagsmenn einir hafi kosningarétt. Stjórnin hvetur alla til þess að koma og sjá hvað við höfum verið að gera og sérstaklega þá sem hafa eitthvað fram að færa eða vilja skrá sig í félagið.

Virðingarfyllst
f.h. AHK
Sigurjón Snær Jónsson
Formaður

Öryggisherferð...


Honda fóru af stað með öryggisherferð sem þeir kalla Stupid Hurts. Eða einfaldlega, heimska er sársaukafull. Og held ég að það verði aldrei ítrekað of mikið að öryggisbúnaður sé í lagi í akstursíþróttum. Persónulega hef ég heyrt of mikið af slysasögum þar sem menn ætluðu "rétt að skreppa" og fara því ekki í gallann og þá fer allt til fjandans. Ég hef reynt eftir megni að fara eftir því sjálfur. Pabbi áminnti mig nú þegar ég kom gallalaus inn á tún í sumar á hjólinu í heyskapinn.
Dirt Rider völdu einmitt kragann góða, sem ég sagði frá um daginn, vöru ársins í motocross-inu. Og er sá kragi einmitt gott mótsvar við hinum gífurlega hraða sem nú er orðinn í þessu sporti. Raddirnar úti um að hætta með 450cc hjól og fara niður 350cc verða sífellt háværari og spurning hvort að AMA og framleiðendur fari að íhuga þær breytingar alvarlega.
Það kemur okkur kannski ekki mikið við en ég vill alla veganna biðja Hreppakappa um að passa öryggisbúnaðinn og það er ekkert að því að áminna hjólafélagana um að gera slíkt hið sama.

EL GRJÓNÓ

þriðjudagur, 4. desember 2007

Nick Sanders...

Í Leifsstöð, á meðan ég beið eftir fluginu til Kaupmannahafnar, hugsaði ég um að ég þyrfti afþreyingu í vélinni. Þannig að leið mín lá í bókabúð og þar sem ég greip það sem ég kallaði klám. Svipurinn á ferðafélögum mínum var mjög sérstakur og gaf til kynna að þar hefði álit þeirra á mér alveg horfið. Svipurinn breyttist lítið þegar þeir sáu að "klámið" var 300asta Dirt Rider blaðið. Þar sem fagnað var 25 ára afmæli Dirt Rider. Og svo þegar ég var á Kastrup-velli á leiðinni heim ætlaði ég mér eitthvað svipað. En þá mundi ég eftir því að Danir versla ekki við Bandaríkjamenn nema þeir virkilega þurfi þess. Sem útskýrir líka afhverju ég fann ekkert motocross tengt. FOX-racing er bara eitthvað ofan á brauð hjá þeim. Sem þýðir að ég endaði með Bike í hönd. En það er breskt götuhjólablað. Það heillaði mig reyndar strax því þeir voru að fjalla um 10 ára afmæli magnaðasta racer-hjóls sem hefur snert plánetuna. Nei, það var ekki Hayabelja. Hayabrussa hvað? Ég er að tala um Yamaha YZF-R1. Sem hreinlega bjargaði Yamaha á sínum tíma og hefur ekki gert neitt annað síðan en að tróna á toppnum.


Þar lærði ég ýmislegt og fann einnig góða grein um mann að nafni Nick Sanders. Heimasíðan hans hér.

Þessi maður er núna á 7undu ferð sinni hringinn í kringum heiminn á mótorhjóli. En frægasta ferð hans er einmitt sú sem fjallað er um í þessu blaði. Þá fór hann hringinn á 19 dögum og þremur klukkustundum. Enginn hefur verið fljótari hringinn öðruvísi en á einhverju sem flýgur. Og hann fór ekki á ljótu ferðahjóli með töskur fullar af dóti. Hann fór á 2005 árgerðinni af óbreyttu R1 hjóli. Hann var ekki með GPS eða töskur. Bara farsíma og kreditkort. Svo var bara keyrt eins og mögulegt var. Hann fór með 4 ganga af dekkjum, tvo af keðjum og tannhjólum og eitt sett af bremsuklossum. Þegar hjólið var tekið í þjónustu voru 3 menn að vinna í því og dekkin fóru undan og á, hjólið var smurt og allt græjað á 45 mínútum. Hjólið bilaði ekkert. Hann valdi þetta hjól því hann vissi að það myndi ráða við verkefnið. Þegar hann var fastur í umferð á Indlandi í 48 gráðu hita var hjólið að ná 126 gráðum og hélt hann að það myndi klára mótorinn en svo fór ekki og hann gat haldið áfram. Það eina sem hann gat sett út á hjólið var það að lýsingin frá því hefði mátt vera betri.


Metið hans er þó ekki lengur "viðurkennt" af Guinnes vegna þess hve hættulegt það er. Að keyra um svefnvana á 1000cc racer-hjóli með 150 km MEÐALHRAÐA er víst ekki það skynsamlegasta sem menn gera.

EL GRJÓNÓ