fimmtudagur, 10. janúar 2008

Spurningar...

Ég hef fengið nokkrar spurningar varðandi stöðu mála og fleira frá nokkrum félagsmönnum og ákvað ég að setja spurningarnar hér inn ásamt svörunum sem ég gaf þeim félagsmönnunum.

Hvar á heimasíðunni get ég séð lög félagsins og fundargerðir (síðasta aukaaðalfundar sérstaklega)? "Ég veit að þetta er kannski orðinn þreytt tugga en staðreyndin er sú að þetta er allt í vinnslu. Ég sé um mestu vinnuna í kringum þetta, því þetta er nú mitt hugarfóstur sem varð að veruleika, og það gefst ekki alltaf tími þegar maður er í fullu háskólanámi og á kafi í vinnunni til þess að hafa í sig og á. Fundargerðirnar eru á leiðinni á tölvutækt form í þessum töluðu orðum. Og þegar þær eru komnar inn, þá fer ég í að finna þeim stað á síðunni. Það sama á við um lögin, sem loksins eru komin í sitt lokaform."

Var gerð fjárhagsáætlun fyrir næsta ár? Hvað á að gera við félagsgjöldin? "Ekki var sett fram fjárhagsáætlun því þetta var aukaaðalfundur. Á aðalfundinum sem haldinn verður í apríl, lögum skv, verða þessi mál öll komin á hreint. Þá verðum við einnig með skýra félagaskrá eftir félagsgjöldin og vonandi komnir eitthvað lengra með svæðisleitina sem einnig hefur þurft að sitja á hakanum. En varðandi svæðið, þá hef ég heyrt raddir um að við eigum að eyða minna púðri í peysur og fundi og meira í svæðisleitina, og vill ég taka fram að ég geri það ekki vegna þess að það er svo gaman. Það verður eitthvað að vera á bak við það að fá svæði. Nokkrir strákar labba ekki inn til landeiganda og fá svæði. Hins vegar félag sem er með sýnilega félagsmenn og starfsemi er mun líklegra til þess að eiga möguleika á svoleiðis. Þessu verður bara að sýna þolinmæði. Og trúðu mér, ég er fyrsti maðurinn sem vill sjá svæði. Það er ástæðan fyrir stofnun félagsins. Og varðandi félagsgjöldin. Þá ætlum við að innheimta 5.000 krónur af þeim sem eru fæddir 1991 og eldri. Hinir yngri verða ekki rukkaðir um félagsgjöld. Hugsunin var að kaupa tímatökubúnað fyrir gjöldin. Æfingabúnað sem við gætum notað við æfingar og einnig í traktorstorfærunni. En félagið er komið með loforð frá styrktaraðila um að gefa þann búnað. Þannig að félagsgjöldin eru fyrst og fremst núna til þess að skilja kjarnann frá hisminu eins og þar er ritað. Þá sjáum við skýrt hverjir ætla að vera í þessu félagi. Peninginn þarf síðan að nýta ef við fáum svæði og annars ætlum við okkur að nýta hann í árshátið eða ferð eitthvert. Það verður tekið til umræðu á aðalfundinum, víst er þó að allir munu njóta góðs af því. Við erum ALLS EKKI að þessu til þess að nýta pening í okkur nokkra félagsmenn. Einnig er hugmynd uppi um að borga fyrir t.d. www.hreppakappar.is og svæði undir betri síðu. Sem við hönnum eins og við viljum hafa hana. Og einnig er mjög ofarlega að reyna að gera eitthvað fyrir ungu meðlimina í þessu félagi."

Nú eru í stjórn eingöngu vélhjólamenn. Væri skynsamlegt að hafa í stjórn menn (konur eru menn) sem hafa áhuga á t.d. dráttavélatorfæru, kvartmílu, góðakstri, fornbílaakstri, jeppamenn o.s.frv. þannig að félagið hefði tök á að uppfylla áhugasvið allra aksturskappa? Eða er þetta eingöngu vélhjólafélag? "Þú þyrftir að vita af nýju stjórninni sem var samþykkt. Ég er ennþá formaður, Ágúst enn ritari og Guðmundur er enn gjaldkeri. Egill er hættur í stjórn. Næsta mál með hann er að nýta hann á fullu í keppnum því hann er mjög hæfileikaríkur hjólari. Nýjir stjórnarMENN eru Jón Þór Tómasson sem er líka varaformaður og meðstjórnandi og Berglind Valdimarsdóttir. Hún er ung stúlka úr Garðabænum sem hefur hjólað með okkur og stefnir á að keppa fyrir okkar hönd. Jón Þór er líka vélsleða- og jeppaáhugamaður og eigandi. Guðmundur á jeppa og er mikið inn í götuhjólunum líkt og ég. Fyrsta hugmyndin að þessu öllu saman var að fá svæði fyrir motocross-hjólin í Hrunamannahreppi. En þar sem ég vissi að einhver frekari starfsemi þyrfti að vera að baki svoleiðis verkefni ákvað ég að stofna félagið og fara alla leið með því að gera það að fullgildu íþróttafélagi. Og hjólin hafa því verið í forgangi. En við héldum traktorstorfæruna í fyrra og á fundinum var ræddur áhugi fyrir því að gera það aftur og var mjög vel tekið í það. Og það er ástæða fyrir því að þetta er AKSTURSÍÞRÓTTAFÉLAG Hreppakappa. Svo allt væri innifalið. Enda voru jeppar, motocross-hjól, sportbílar, fjórhjól ,götuhjól og traktorar á stofnfundinum. En þar sem þetta fór af stað vegna motocross-ins í upphafi þá hefur áherslan verið þar. Þar er heilmikil uppbygging fyrir höndum og bara svo og svo margt sem hægt er að gera með þennan mannskap. Mundu, þetta er allt sjáfboðastarf sem gæti skilað Hreppnum og félagsmönnum miklu seinna meir. Og ég hef líka sagt oftar en einu sinni hér á síðunni að félagsmenn verði að taka þátt í starfinu, koma með hugmyndir og fleira til þess að gera fleira en það gerist bara ekki neitt. Ég get ekki verið að halda í hendina á 60 félagsmönnum og segja þeim hvað við erum að gera, hvers vegna og spyrja hvern og einn hvað hann vilji gera. Menn verða að koma fram með hugmyndir hér á netinu. Ef menn ráða ekki við það eru þeir ekki líklegir til mikilla dáða. Því miður. Þeir sem hafa tekið þátt eru menn með motocross-hjól milli fóta sér. Og fólk mætti ekki á fundinn og er svo hissa að vita ekkert hvað sé í gangi hjá félaginu. Það er svona svipað og nenna ekki að opna augun en kvarta undan því að sjá ekki neitt. Og öllum er heimilt að gera hluti í nafni félagsins. Og ef þeir eru ekki vissir um hvernig eigi að standa að því en hafa góða hugmynd, er algjört lágmark að koma henni til stjórnarinnar."

EL GRJÓNÓ

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvet fólk til að fara inn á spjallið og taka þétt í umræðuni um þetta þar.