föstudagur, 8. júní 2007

Testósterón 2007

Á sunnudagsmorguninn mun stjórnin leggja af stað í ferðina miklu sem fengið hefur nafnið Testósterón 2007. Markmiðið er að vera sýnilegir og umframt allt hafa gaman af. Við verðum í peysunum, erum búnir að merkja eitthvað af motocross-treyjum líka og fánarnir verða tilbúnir fljótlega. Ef þessi ferð mun ganga vel, mun skráning í svona hringferð ábyggilega fara af stað fyrir næsta ár. Og þá munum við vonandi fjölmenna. Einn stjórnarmeðlimur splæsti í nýja myndbandsupptökuvél og myndavélar verða með í för. Markmiðið er að uppfæra síðuna með myndum og léttri ferðasögu flest kvöldin þannig að hægt verður að fylgjast með okkur þar.
En fyrir þá félagsmenn sem hafa fengið það á tilfinninguna að ekkert sé í gangi, þá skil ég það vel. En ýmislegt er samt búið að gerast og er í farveginum. Félagið er nú skráð og komið með kennitölu. Bankareikningur á nafni félagsins verður fljótlega stofnaður og verður hann notaður fyrir styrki sem félagið fær og í tengslum við allt félagsstarfið. Umsóknin er lent hjá stjórn HSK og mun hún funda 16. júní. Og þá fær félagið bráðabirgðaaðild að HSK sem þýðir að við erum komnir með keppnisleyfi um leið og við erum búnir að útbúa samþykkta braut. Þannig að félagið er komið í gott stand í pappírsmálum.
Og varðandi peysurnar, að þá fæ ég tilboð frá Merkt í pöntunina í næstu viku og ef mér líst vel á það sem þeir bjóða mun ég taka niður nöfn þeirra sem vilja peysu og panta á allt liðið. Vonandi taka allir þátt í því og verða duglegir að ganga í peysunum.
Heimasíðan hefur reyndar setið svolítið á hakanum undanfarið vegna undirbúnings við ferðina, en það mun breytast, vonandi í ferðinni með ferðasögum og myndum og eftir ferð.
Einnig mun birtast í næsta Pésa létt kynning á félaginu og þar verður einnig auglýst eftir svæði, ef einhver landeigandi skyldi vera tilbúin í þetta verkefni með okkur.

EL GRJÓNÓ

Engin ummæli: